fbpx

Við erum næstum öll með apa í höfðinu í einhverri mynd. Sumir eru með mjög uppvöðslusaman apa sem svífst einskis og rífur niður allt sem honum dettur í hug. Aðrir eru með apategund sem er mjög lúmsk, hefur ekki mjög hátt en nær sínu alltaf fram.

Í báðum tilfellum er tilgangurinn niðurrif undir einhverjum formerkjum:

 • „Þetta verður þér algjörlega ofviða“
 • „Þú hefur engan veginn nóg fram að færa til að ná þessu fram“
 • „Hver heldurðu að hlusti á þig? Það munu allir halda að þú hafir misst vitið“
 • „Best að fresta þessu bara … “
 • „Láttu þetta bara eiga sig, fáum okkur bara rauðvínsglas og allt verður betra á morgun“

Ég hef unnið með ótrúlegum fjölda einstaklinga við apatamningar og ég hef lært margt af því. Stærsti lærdómurinn er sá að apinn vill vera frjáls. Hann þolir afskaplega illa að vera undir eftirliti því þá hefur hann ekki lengur frelsið til að vinna skemmdarverkin!

Ummerkin eftir apann

Til að fylgast með apanum verðum við að þekkja ummerkin eftir hann:

 • Frestunarárátta

– þú veist að þú ættir að sinna ákveðnu verkefni en leggur það frá þér aftur og aftur og nærð ekki að klára

 • Draumar um árangur

– en algjört athafnaleysi af þinni hálfu til að ná þessum árangri

 • Óttinn við höfnun

– hvað finnst öðrum? Ætli þetta passi? Verður mér hafnað af vinum eða fjölskyldu?

 • Óttinn við mistök

– ef ég klúðra þessu er ég alveg búin(n) að vera

 • Að vera ekki verðug(ur)

– ég á svona velgengni engan veginn skilið

Næsta skref er að fylgjast með orðræðu apans og meta hvort hún er sanngjörn:

 • Myndi ég segja þetta við einhvern sem mér þykir vænt um?
 • Eru þetta raunhæfar hugsanir?

Raunveruleikaprófið

Það er öflugt ráð að stíga inn í aðstæður í huganum og sjá hvort staðan er nokkuð eins slæm og við fyrstu tilhugsun – að gera eins konar raunveruleikapróf.

Eiga þessar hugsanir einhverjar dýpri rætur? Hvers vegna koma þær núna?

Oft blaðrar apinn bara viðstöðulaust vegna þess að hann hefur aldrei verið stöðvaður. En stundum eru ræturnar mun dýpri, t.d. áföll, veikindi, mikil streita eða bara almenn andleg vannæring. Í slíkum tilfellum mæli ég með því að fólk fái faglegan stuðning, t.d. hjá góðum markþjálfa.

Að rjúfa vítahring niðurrifshugsana

Hálfur sigurinn vinnst á fremur auðveldan hátt. Það gerum við með því að læra að þekkja ummerki niðurrifshugsana í eigin hegðun. Ef við gerum það og hlustum meðvitað á það sem apinn býður upp á mun fljótt hægjast á niðurrifinu.

En það þarf að stunda þetta eftirlit í nokkurn tíma til að þjálfa hugann. Annars er hætta á að við gleymum okkur og apinn nái aftur að ganga laus. Með aukinni þjálfun minnkar verulega það svigrúm sem apinn hefur og hann veit að hann er að tapa fyrir þér.

Þú ræður því hvort þú hlustar á hann. Þetta er ekki flóknara en það.

Máttur hugans getur verið mikill og því er gott að hugsa með sér: „Ég heyri hvað þú segir en ég ætla ekki að taka við þessu. Þetta er hvorki rétt né sanngjarnt.“

Til að gera svona lagað þarftu vissulega aga og yfirvegun en þetta er samt fullkomlega framkvæmanlegt. Ég hef óteljandi dæmi í farteskinu af árangursríkri vinnu við að gera apann óvirkan … eða bara gera hann að meinlausum félaga.

Það sem gerist er að apinn fær alltaf minna og minna fóður til að vinna með og smám saman gefst hann upp. Þar með hefur þú tekið við húsbóndasætinu á hugarheimili þínu.

Ávinningurinn sem fæst með þessari vinnu er ótvíræður. Sjálfstraustið eykst og samskiptin við aðra stórbatna. Við áttum okkur á því að sumt hefur einfaldlega ekki neitt með okkur sjálf að gera – sumir einstaklingar eru kannski bara í vandræðum með sinn eigin apa og láta það bitna á þér.

Síðast en ekki síst færist friður og ró yfir hugann og hann verður skýrari og mildari.

Gangi ykkur vel að temja apann!

Svava Bjarnadóttir
www.kapituli.is

© 2018 | Kapituli ehf. | Síðumúla 14, 108 Reykjavík  | 698 9989