fbpx

„Vá hvað ég er gjörsamlega með þetta!“
Hvenær upplifðir þú síðast þessa tilfinningu?

Í síðustu bloggum höfum við farið í gegnum lífsgildin og mikilvægi þess að vita hver maður er og fyrir hvað maður stendur. Það er ekki síður mikilvægt að vita hvar styrkleikar manns liggja og hvaða þættir efla okkur í lífi og starfi.

Ég veit ekki hversu oft ég hef setið á móti viðskiptavini með penna í hönd og algjörlega tóm augu:

Styrkleikarnir mínir … ég hef bara ekki græna glóru … þetta er nú frekar vandræðalegt.

Þessi viðbrögð eru því miður mjög algeng, en þegar athygli er beint að veikleikunum fær fólk andann yfir sig og skrifar langa og ítarlega lista.

Apinn í höfðinu er nefnilega alveg einstaklega upptekinn af því að finna veikleikana og velta sér upp úr þeim – svo ég líti ekki illa út eða geri sömu mistökin aftur. Þetta er í raun ævagamalt varnarviðbragð heilans sem takmarkar okkur mikið í nútímanum en hentaði vel á gresjunni þegar við lentum í aðstæðum upp á líf og dauða.

Í samhengi við lífið eru 5–10 mínútur ekki langur tími til að fara í gegnum styrkleikamat. Ertu tilbúin/n? Finndu blað og penna – spurningarnar mínar leiða þig í gegnum mjög einfalda en dýrmæta vinnu.

  • Hugsaðu um þrjá þætti í eigin fari sem þú ert verulega stolt/ur af
  • Fyrir hvað er þér oftast hrósað?
  • Hvað elskarðu að gera?
  • Hvað liggur mjög vel fyrir þér?

Hvað tínist til þegar þú ferð í gegnum þessar vangaveltur?

Styrkleikarnir eru mikilvægir vegna þess að:

  • Þeir sýna okkur hver við erum, sönn og sterk
  • Þeir veita okkur sjálfstraust til að gera okkar allra besta
  • Þeir varna þess að við höldum að við séum ekki verðug og að við ættum að vera eitthað annað en við erum í raun

Farðu vel yfir listann þinn og geymdu hann í hjartanu. Með þessari vinnu gefurðu þér dýrmæta gjöf og þegar þú þekkir styrkleika þína og stígur inn í þá eru þér flestir vegir færir.

Bestu kveðjur
Svava í Kapitula

www.kapituli.is

© 2018 | Kapituli ehf. | Síðumúla 14, 108 Reykjavík  | 698 9989