fbpx

„Almáttugur, ég veit ekki hvort ég er að koma eða fara!“ segir ringlaða týpan þegar allt er komið í óefni.

En hvernig er með ÞIG? Ert þú ringlaða týpan? Veist ÞÚ innst inni hvaðan þú ert að koma, hvert för þinni er heitið, hver stefna þín er?

Í síðasta bloggi fjallaði ég um lífsgildin og vona innilega að þú hafir skilgreint gildi. Ástæðan er einföld og skýr:

Lífsgildin eru mikilvægur áttaviti og þau styðja þig í því að rata um völundarhús lífsins.

Það er mikill lærdómur fólginn í því að fara í gegnum lífsgildavinnuna. Sjálfsmyndin verður skýrari og ljósara hver þú ert og fyrir hvað þú stendur. Lífsgildaáttavitinn er dýrmætur því hann verður innbyggður en ekki rykfallinn og ónýttur ofan í skúffu. Hann er dásamlegt tæki til að skýra stefnuna og auðvelda þér að lifa því lífi sem veitir þér mesta fyllingu. Reynsla mín hefur leitt skýrt í ljós að fólk með skilgreind lífsgildi:

  • Fer sínar eigin leiðir
  • Setur sig í fyrsta sæti
  • Lætur skoðanir annarra hafa mun minni áhrif á sig
  • Á auðveldara með að setja öðrum mörk
  • Treystir eigin hyggjuviti og innsæi
  • Fer mjög markvisst á eftir því sem það þráir
  • Nær árangri í lífinu

Það er hins vegar ekki nóg að skilgreina gildin heldur þarf að skoða þau reglulega og gera stöðumat. Þarna gildir alveg sama lögmál og með áttavitann í ferðalagi – við tökum ekki bara stefnuna einu sinni heldur þurfum við að líta á hann reglulega. Góð æfing er að skrifa gildin á blað, líta svo reglulega inn á við og gefa sér einkunn á skalanum 1–10 fyrir hvert og eitt gildi.

Hér kemur raunverulegt dæmi um gildi og hvernig unnið var með stöðumat á þeim eftir að þau höfðu verið skilgreind:

GILDI
Jafnvægi
Hugrekki
Kærleikur
Virðing
Tilgangur

STÖÐUMAT
Jafnvægi – 7
Hugrekki – 3
Kærleikur – 6
Virðing – 8
Tilgangur – 6

Í þessu dæmi sker eitt gildið sig alveg úr í stöðumatinu. Hugrekkið fær áberandi lægsta einkunn.Af hverju skyldi það vera? Jú, viðkomandi einstaklingi fannst hún ekki vera nægilega hugrökk til að standa með sér heldur lét hún þarfir annarra ganga fyrir. Hún hafði upplifað ójafnvægi í lífinu og skildi núna ástæðuna fyrir því. Í framhaldinu setti hún sér það markmið að gefa sjálfri sér meira rými til að vera til og gera það sem hún þráir í þeirri vissu að það skilaði betri líðan og að þannig hefði hún meira að gefa fjölskyldunni og á vinnustaðnum. Lífsgildið virðing hjálpaði mikið til þar sem hún tengdi gildið líka við sjálfsvirðingu: „Ef ég ber virðingu fyrir sjálfri mér þá er ég þess verðug að gera ákveðna hluti fyrir mig á mínum eigin forsendum“.

Þetta var einungis örstutt dæmi um lífsgildavinnu og hvernig hún getur aukið skýrleika í lífinu. Það er vissulega hægt að lifa lífinu án áttavita – en þá er ekki víst að þú komist þangað sem þú vilt …

Svava í Kapitula
www@kapituli.is

© 2018 | Kapituli ehf. | Síðumúla 14, 108 Reykjavík  | 698 9989