fbpx

Ert þú áhyggjuverktaki?

Tekur þú stundum að þér áhyggjur eða vanlíðan annarra? Sumt fólk sem áttar sig á þessu gantast með að vera „áhyggjuverktaki“ þegar slík hegðun fer af stað.

Þótt ég hafi rætt um margar tegundir samskipta hér að framan hef ég enn ekki fjallað um eitt athyglisvert atriði. Það er þegar við tökum við orðum eða tilfinningum sem eiga ekkert erindi inn í okkar tilfinningalíf.

Tökum sem dæmi makann sem kemur heim úr vinnunni, frekar þungbúinn og fámáll. Skyndilega koma frá honum orð sem særa: „Hrikalega ertu eitthvað leiðinleg í dag. Ég held ég fari bara út og hitti einhverja félaga. Það er varla hægt að tala við þig.“

Í kjölfarið sekkur hjartað og afsakanirnar vilja streyma fram.

En bíddu við! Var einhver sannleikur í þessum særandi orðum? Getur ekki verið að makinn sem kom heim eigi þetta einfaldlega allt saman sjálfur – að hann sé þreyttur og pirraður eftir erfiðan vinnudag?

Svona aðstæður er sérlega erfiðar fyrir þau okkar sem eru meðvirk. Stundum þarf ekki annað en þögn til að framkalla hjá okkur vanlíðan og ákveðna hegðun.

Í ofangreindu dæmi er sá sem segir særandi orðin að sturta sínu rusli og áhyggjum yfir á þig – og oft er það ómeðvitað.

Er það sanngjarnt? Nei.

Hvað er þá til ráða. Jú, hér þarf að sýna styrk í mýkt. Hér þarf að taka ekki við orðunum og hugsa með sér:

Þetta á ég ekki!

Þá getur verið gott að segja: „Ég sé hvar þú ert staddur og ég hef ákveðið að taka ekki við þessum orðum. Þú mátt eiga þau með sjálfum þér.“

Með því að sýna styrk í mýkt setur þú öðrum manneskjum mörk, heldur sjálfsvirðingunni … og síðast en ekki síst fóstrar þú ekki vanlíðan annarra.

Kveðja
Svava í Kapitula
www.kapituli.is

 

 

 

© 2018 | Kapituli ehf. | Síðumúla 14, 108 Reykjavík  | 698 9989