fbpx

 Stundar þú fjárfróun?

Í hinu daglega lífi horfum gagnrýnislítið á ákveðna hluti.
T.d. hvernig samfélagið elur á ákveðinni innrætingu um skort.

Þegar við erum í skortstöðu þá leitum við leiða til að fylla á tankinn, við stundum fjárfróun þ.e. finnum skyndilega fyrir þörf, þörf fyrir eitthvað sem veitir okkur vellíðan.

Markaðsöflin ala stanslaust á ótta og koma okkur ómeðvitað í skortstöðu.  Þá kemur þörfin fyrir fjárfróunina. Þ.e. við fróum okkur með því að kaupa og fáum sammtímis fullnægju með í gleðinni yfir því sem keypt var.
Skoðum þetta nánar,  hvað erum við raunverulega að kaupa?

Við erum raunverulega að kaupa okkur tilfinningu en ekki hlut.

  • Ef við þráum völd og áhrif, þá má nefna sem dæmi um fjárútlát , ýmiskonar merkjavöru sem hefur ímynd valds og auðæfa. Sem dæmi má nefna að bílar af ákveðnum tegundum hafa reynst mörgum mjög sæluríkir.
  • Ef við þráum tilfinninguna að vera verðug þ.e. að vera fögur, aðlaðandi og heillandi má nefna ýmsar tegundir snyrtivara, fegrunaraðgerða, vítamína, fatnaðar og svo mætti lengi telja.
  • Ef við þráum tilfinninguna að vera heilbrigð og hraust, þá langar okkur óendanlega í nýjustu hlaupaskóna frá ákveðnu merki eða reiðhjól úr tiltekinni búð. Eitthvað veitir okkur hina dásamlega tilfinningu um að vera glóandi af hreysti og orku.

Svona mætti lengi telja, en í raunni snýst þetta allt um það sama, skammtímalausnir til að veita okkur vellíðan.  Enginn veraldlegur hlutur kemur í staðinn fyrir tilfinningu sem við þráum. Alla vega ekki til langs tíma.  Það eru til aðrar leiðir;

  • Skoðum – hvenær kemur þessi þörf upp? Af hverju vantar mig skyndilega nýjan bíl, hús, skó, tösku, snyrtivöru?  Það er næsta víst að einhver tómleiki er að láta á sér kræla. Erfiður vinnudagur, álag í samskiptum við nána ættingja mætti nefna sem dæmi.
  • Önnur ástaæða og öllu alvarlegri eru áföll af ýmsum toga.

Við erum mjög varnarlaus fyrir skortstöðuhegðuninnni og hér kemur ein af helstu ástæðunum:
Í nútímanum flæða yfir okkur skilaboð um það hvernig við eigum að vera til þess að vera samfélagslega samþykkt.  Skilaboðin ryðjast  yfir okkur eins flaumósa stórfljót.  Við tökum við sama magni af upplýsingum á einum degi eins og manneskja tók við á  heilli mannsæfi á 17. öld.  Við fáum fleiri og fleiri skilaboð um hvað við þurfum að bæta, hvað aðrir eru að brillera miklu meira en við og hvernig allt í kringum okkur á að vera eins og glansmynd.  En hvað er til ráða?

Verum gagnrýnin á allt í umhverfi okkar.

Horfum raunsæjum augum á þær glansmyndir sem okkur eru sýndar

Það hefur enginn rétt á því að ala á ótta um að við séum ekki nógu góð eins og við erum

Enginn!! 

Það þarf ekki að selja okkur varning fyrir stórar fjárhæðir til að við verðum nógu góð. Það eina sem gerist er að við þurfum að kaupa stærra hús fyrir allt dótið, stærri skápa, eða jafnvel leigja geymslu úti í bæ.

Berum virðingu fyrir okkur sjálfum og látum engan segja okkur hvernig við eigum að vera. Látum ekki sá fræjum skortsins í sálartetrið, þau ala á ótta, óttanum við að vera ekki samþykkt.  Þetta er eldgömul þörf sem á rætur sýnar að rekja til forneskju þegar að ein að grunnþörfunum til að lifa af var að tilheyra ættbálki.

Við aflærum smátt og smátt gamlar venjur með því að vera betur meðvituð um það hvernig okkur líður.  Þannig búum við til pláss fyrir nýjan þroska. Þroska sem veitir okkur annarskonar langvarandi fullnægju í lífinu.  Þannig njótum við þessa að vera einstök í stað þess að vera í sífellu að reyna að passa í tilbúin box og staðlaðar glansmyndir.  Heilinn okkar heldur að við verðum ekki sátt fyrr en við höfum öðlast allt sem okkur skortir. En….. þetta er akkúrat á hinn veginn.

Sá sem er sáttur við sjálfan sig skortir ekki neitt.

Gangi ykkur vel
Svava í Kapitula

www.kapituli.is
svava@kapituli.is

 

© 2018 | Kapituli ehf. | Síðumúla 14, 108 Reykjavík  | 698 9989