fbpx

Í dag er nýr dagur og við höldum áfram að læra – og við gerum það vegna þess að við erum opin fyrir lexíum lífsins. Í dag skulum við halda áfram með það sem aldrei er kennt í skóla.

Ertu annars búin(n) að finna kjarnastyrkleikana þína?

Ég geri ráð fyrir því að svo sé og að þú hafir lesið síðustu bloggin sem ég hef skrifað. Þau eru ljúf og hjartastyrkjandi og ég mæli með lestri ef þú hefur ekki þegar gert það.

Það sem einkum aftrar okkur í að njóta styrkleikanna sem við ráðum yfir er „apinn“ sem býr í höfðinu á flestum manneskjum. Án þess að veita því sérstaka athygli leyfum við apanum gjarnan að blaðra stjórnlaust. Hann er lúmsk leyniskytta og oft gerum við okkur ekki grein fyrir því hversu svæsinn hann getur verið.

Hér koma algengar tilvitnanir sem ég hef heyrt í apatamningum með mínu fólki:

Þú ert nú meiri auminginn!
Hver heldurðu að hlusti á þig?
Þú hefðir nú getað gert þetta miklu betur!
Þetta gekk allt frábærlega vel. En …

Til að geta nýtt styrkleika okkar til fulls verðum við að svæfa apann. Hann þjónar þeim eina tilgangi að rífa okkur niður. Af hverju leyfum við apanum að gjamma áfram – jafnvel þótt við vitum fullvel hvaða styrkleikumvið búum yfir?

Svarið liggur aftur í fornöldum. Fyrir margt löngu þróuðumst við sem manneskjur í Austur-Afríku … og síðan eru liðin mörg ár. En elsti hluti heilans í okkur virkar samt ennþá eins og við séum stödd þar og þá, oftar en ekki í lífshættulegum aðstæðum.

Þess vegna snýst apatamningin um að við grípum hugsanir okkar þegar þær detta inn í elsta og frumstæðasta hluta heilans sem er sérhannaður fyrir Austur-Afríku en ekki fyrir nútímasamfélagið sem við lifum í. Þetta er apaheilinn. Hann bregst alltaf við þegar hætta steðjar að … lífshætta!!!

Í dag er okkar mesta lífshætta að vera of stressuð, of þreytt, illa nærð, illa sofin. En af hverju? Við erum enn að hlusta á gamla apaheilann sem þjónaði okkur fyrir mörg þúsund árum. Lausnin er svo einföld: Hættum að leyfa apaheilanum að stjórna okkur. Grípum apalegar hugsanir strax – áður en þær hafa áhrif á líkama og sál.Nei takk! Þessar hugsanir þjóna mér ekki og því hlusta ég ekki á þær.

Þegar við höfum stundað apatamningar í nokkurn tíma getum við farið að setja inn jákvæðar og nærandi hugsanir í staðinn fyrir allt apablaðrið. Okkar er valið og okkar verður ánægjan.

Svona temjum við apann:

Við grípum hann þegar hann byrjar („úpps … er ekki blessaður apinn mættur!“) – þetta er algert lykilatriði
Við látum hann finna að við erum að fylgjast með honum – þá verður hann ekki eins frekur og árásargjarn
Við höldum „apadagbók“ og skráum í hana allt bullið sem apinn vill næra okkur á
Við segjum vinalega við apann: „Ég heyri hvað þú segir en ætla samt ekki að taka við því“
Við setjum inn góðar og nærandi hugsanir í stað niðurrifs úr apaheilanum

Apatamning af þessu tagi krefst auðvitað vissrar þjálfunar, en hún margborgar sig. Gott getur verið að hafa einhvern með sér í þessari þjálfun, t.d. maka eða vin sem er að vinna svipaða sjálfsvinnu. Apanum finnst nefnilega ekkert verra en að láta hafa eftir sér upphátt, bæði orð, viðhorf og tilfinningar.

Gangi ykkur vel að svæfa apann – stígum öll af hugrekki inn í fullan styrk og látum ekki apalegar hugsanir hindra okkur í lífinu!

Kveðja,

Svava í Kapitula

© 2018 | Kapituli ehf. | Síðumúla 14, 108 Reykjavík  | 698 9989