fbpx

Hefurðu einhvern tímann velt fyrir þér hver þú ert í raun og veru og á hvaða leið þú ert í lífinu?Sumir verja nefnilega meiri tíma í að skipuleggja sumarfríin sín en að spekúlera í lífi sínu og tilgangi – eins undarlegt og það nú hljómar.

Eitt það skemmtilegasta og mikilvægasta sem ég geri í vinnu minni með öðrum er að skilgreina lífsgildin. Sú manneskja sem gerir það getur sagt með sanni:

ÉG VEIT HVER ÉG ER
ÉG VEIT FYRIR HVAÐ ÉG STEND
ÉG VEIT HVERS VEGNA

Með því að fara í gegnum þessa vinnu öðlastu mun dýpri skilning á eigin hegðun og viðbrögðum. Af hverju setti ég punktinn þarna á þessum stað og sagði: „Nú er nóg komið?“ Af hverju fara ákveðnir þættir hjá öðrum meira í taugarnar á mér en aðrir?

Líttu inn á við og spurðu þig: „Hvað skiptir mig mestu máli í lífinu?“

Gefum okkur að gildin „traust“ og „heiðarleiki“ komi fljótt upp í huga þinn. Þá geturðu skilið hvers vegna þú settir punktinn í sambandinu eða vinnunni þegar þú komst að því að þú gætir ekki lengur treyst. Ef gildin „dugnaður“ og „drifkraftur“ skjótast fljótt upp á yfirborðið geturðu skilið betur af hverju þú átt erfitt með að umbera leti eða seinagang hjá öðrum.

„Koma svo! Drífa sig!“ Hljómar þetta kunnuglega?

Traust og dugnaður eru bara einföld dæmi um gildi og það eru margar leiðir færar að því að skoða gildin sín. Það sem fólki reynist hins vegar oft erfiðast að finna eru þau gildi sem ég kalla „mjúk gildi“ en þau snúa að því mikilvægasta af öllu: Ást, kærleika og tilgangi.

Leiðin til að finna þessi gildi er að hugsa með sjálfum sér: „Hvernig líður mér þegar ég horfi á maka minn eða börn sofa? Hvers vegna er ég í þessu sambandi … hvers vegna er ég foreldri … hvers vegna er ég vinur?“

Engill í eigin jarðarför
Hvað segir presturinn um þig þegar þú hefur lifað lífi sem færði þér hamingju og lífsfyllingu? Hvernig birtist þú sem manneskja í eigin jarðarför? Sem ævintýramanneskja með frelsisþrá, sem umhyggjusamur einstaklingur, sem góður vinur? Birtistu sem engill í eigin jarðarför … eða sem víðtæk eftirsjá?
Hér hef ég aðeins nefnt örfá dæmi sem fá þig til að hugsa um lífsgildin og leitina að þeim. Lífsgildin eru svo stórt atriði í lífshamingjunni að ég gæti skrifað heila bók um þau, en ég reyni eftir fremsta megni að hafa bloggin mín stutt og praktísk og bókin verður því að bíða að sinni.Ég mæli með því að þú skrifir niður fjögur til fimm gildi sem lýsa því fyrir hvað þú stendur. Í næsta bloggi ætla ég svo að fjalla um hvernig þú getur unnið með gildin þín í lífinu.

Kveðja,
Svava í Kapitula
www.kapituli.is

© 2018 | Kapituli ehf. | Síðumúla 14, 108 Reykjavík  | 698 9989