fbpx

Hvað tekur þú með þér úr barnæsku sem þjónar þér ekki í dag? Í okkur öllum búa einhverjar gerðir af „áráttu“, þótt auðvitað séu þær ólíkar, misstórar og missterkar. Í mörgum búa jafnvel margar gerðir áráttu sem skiptast á og togast á – til dæmis skipulagsárátta, frestunarárátta, stjórnunarárátta og þóknunarárátta.

Þegar við vorum börn þróaðist með okkur hegðun sem oftast var ómeðvituð. Þessi þróun er persónubundin og byggir á aðstæðum hvers og eins.

Hvernig var þín æska?

  • Var hún friðsæl og átakalaus?
  • Bjóstu við ofbeldi? Andlegt og/eða líkamlegt?
  • Fékkstu mjög litla umhyggju og örvun?
  • Varstu send(ur) í burtu frá fjölskyldunni í langan tíma?
  • Varstu sett(ur) á stall?

Hvort sem þú tengir við eitt eða fleiri atriði fylgja þér alla ævi vissar gerðir af hegðunaáráttu sem þú lærðir sem barn. Ég hef séð ótal svona mynstur og þau tengjast öll ótta um:

Að vera ekki elskaður

Við höfum frumstæða og innbyggða þörf fyrir að vera tengd öðrum, að vera elskuð og virt sem einstaklingar og að tilheyra hópi, fjölskyldu og félögum.

Hvað gerðir þú sem barn í óttaaðstæðum?

    • Axlaðir þú ábyrgð til að tryggja að allt væri í lagi? „Stjórnandavestið
    • Varstu árásargjarn/gjörn og reifst kjaft ef þér var ógnað? „Árásarbrynjan
    • Varstu stillti strákurinn/stelpan sem öllum líkaði við? „Englaklæðin“
    • Varstu húmoristinn sem sneri öllu upp í grín? „Hressa úlpan
    • Varstu ósýnileg(ur) til að vera ekki fyrir? „Huliðshempan

Sem fullorðinn einstaklingur er mjög líklegt að þú dettir ósjálfrátt í einhverja áráttuna og smellir á þig einum af gömlu búningunum. Þetta gerist þegar þér finnst þér vera ógnað og þú upplifir ótta. Og það vill þannig til … að sjaldnast þjóna þessi viðbrögð nokkrum tilgangi.

Væri ekki dásamlegt að geta bara ýtt á „endurstilla“ og losa sig við öllu þessi gömlu mynstur? Við fæddumst reyndar ekki með slíkan takka en við getum hins vegar aflært þau með því að skilja hegðunina og grípa okkur þegar við hendumst í árasárbrynjuna og segjum eitthvað í pirringi sem særir eða ógnar öðrum … gjarnan manneskju sem sjálf stekkur í huliðshempuna og fer í feluliti eins og rjúpa að vetri og segir ekki orð. Það er augljóst að aðstæður sem þessar skila engu.

Þótt við getum ekki ýtt á „endurstilla“ getum við komist ansi nálægt því með því að skilja eigin hegðun. Bara með því að átta sig á því að við erum ekki 100% og að allir hinir eru líka frekar tregir. Byrjunin er alltaf að horfa inn á við og sjá að þótt við höfum ýmislegt sem má bæta þá erum við einstök.

Nú er bara að skella sér í þorgallann (sjá síðasta blogg) og byrja að æfa sig heima! Þá erum við komin í Aflæringarskólann – sem ég vildi helst stofna strax í dag!

Afklæðumst „áráttunni“ og njótum þess að eiga margfalt betri samskipti en áður.

Góða skemmtun og góða daga!
Svava í Kapitula

© 2018 | Kapituli ehf. | Síðumúla 14, 108 Reykjavík  | 698 9989