fbpx

Er hlustað á þig?

Mikilvægi þess að kunna að hlusta verður seint hægt að meta til fulls. Hlustun er grunnurinn að öllum samskiptum. Deilur, misskilningur, baktal, kjaftasögur, kulnun og svo ótalmargt fleira á rætur sínar að rekja til þess að ekki var hlustað af fullri athygli.

Hvernig líður þér þegar ekki er hlustað á þig af fullri athygli? Já, við þekkjum þetta öll. Í erli nútímans er ótal margt sem glepur mann og oft er mjög takmörkuð hlustun í boði þar sem fólk er með hugann við tölvuna, símann eða sjónvarpið … eða bara almennt andlega fjarverandi.

Virk hlustun er grunnurinn að góðum og uppbyggilegum samskiptum, hvort sem það er í vinnu eða heima við. Í þessu ber sérstaklega að hafa börnin í huga. Við eigum oft á hættu að missa af verðmætum gullmolum frá barnshjartanu ef athygli okkar er takmörkuð eða tjóðruð við hversdagslega hluti. Hvaða barn kemur aftur og segir frá þegar það hefur nokkrum sinnum verið hunsað fyrir síma eða tölvu?

Fyrir mér er virk hlustun og aðferðafræðin í kringum hana ein mikilvægasta listgreinin.

Hér eru helstu skrefin í virkri hlustun:

  • Sýndu 100% athygli, snúðu þér frá tölvu eða sjónvarpi og leggðu frá þér símann.
  • Sýndu viðkomandi að þú hafir tíma og áhuga með því að kinka kolli og halda góðu augnsambandi.
  • Ekki grípa fram í fyrir viðmælandanum.
  • Þegar viðkomandi hefur lokið frásögninni er gott að hafa stutta þögn – þá er augljóst að þú meðtekur það sem þér var sagt.
  • Endursegðu í stuttu máli það sem þú heyrðir, t.d. með því að segja: „Er það rétt skilið hjá mér að … “
  • Með þessu sýnirðu svart á hvítu að þú meðtókst það sem þér var sagt.
  • Spyrðu spurninga þannig að umræður skapist – þannig dýpkar skilningurinn og oft verða til frábærar lausnir ef rætt er um mál sem þarf að leysa.
  • Í lokin er gott að þú eða viðmælandi þinn dragi saman efni samtalsins.

Hér að framan er rétt stiklað á stóru, en með því að vera góður hlustandi gefur þú fólkinu í kringum þig mikilvæga gjöf og skapar mikið traust. Þú sýnir þeim sem þú hlustar á samkennd og virðingu með því að vera til staðar. Sá sem hlustað er á finnur að orð hans eða hennar skipta máli og viðkomandi finnur til stolts og viðurkenningar.

Fyrir utan þann augljósa kost að þessi aðferð lágmarkar hættuna á misskilningi.

Af hverju elskum við þegar hlustað er á okkur af athygli … en eigum sjálf erfitt með að gefa okkur tíma til að hlusta á aðra?

Æfingin skapar meistarann. Hafðu virka hlustun í huga á hverjum degi og samskipti þín við aðra munu færast á allt annað og betra plan. Þau munu veita þér til mikla ánægju og vinsældir og stuðla að afburðaárangri í starfi.

Hver er ekki til í það?

Kveðja
Svava í Kapitula

www.kapituli.is
svava@kapituli.is

Hlustun og óskipt athygli eru sjaldgæf en máttug gjöf

 

 

© 2018 | Kapituli ehf. | Síðumúla 14, 108 Reykjavík  | 698 9989