fbpx

Ertu andvaka? Prófaðu að anda!

Ég hef mikið velt fyrir mér hugarblaðrinu sem við könnumst flest við og í síðasta bloggi ræddi ég um apann í höfðinu og hvernig hægt væri að losa sig við niðurrifshugsanir.
En þrátt fyrir að apinn þagni að mestu getur enn komið upp órói í höfðinu og auðvitað líkamanum. Þess vegna hef ég alltaf daðrað við hugleiðslu. Stundum hefur það gengið vel og stundum ekki. Hugurinn er eins öflugur og hann er óútreiknanlegur og við þurfum að eiga „verkfæri“ til að ná tökum á honum.
Segjum sem svo að við vöknum um miðja nótt og hugurinn sé fastur í eins konar þeytivindu um allt og ekkert sem við höfum áhyggjur af vegna morgundagsins. Það er deginum ljósara að það er ekki gagnlegt að vera andvaka og það er líka deginum ljósara að við leysum engin þessara verkefna á meðan við byltum okkur í bælinu í vanlíðan. Þess vegna er gott að hafa „verkfærið“ til að rjúfa þennan vítahring.

Svona virkar verkfærið:

Farðu fram úr rúminu, út úr svefnherberginu og horfðu út um glugga til að ná svolítilli ró.
Sestu á gólfið eða í sófann með hlýtt teppi. Leggðu hendurnar á bringuna og segðu við sjálfa(n) þig:
Þetta er allt í lagi, þetta fer allt á besta veg, nú ætlum við að ná ró í hugann. Oft er gott að rugga sér aðeins á
meðan þetta er gert.

Færðu athyglina að önduninni og hægðu smátt og smátt á henni. Upplifðu innra með þér þá gæsku sem við
getum sýnt sjálfum okkur – svona eins og ef barnið okkar hefði vaknað með andfælum og gæti ekki sofnað
aftur.

Eftir 15–30 djúpa andardrætti gerir ósjálfráða taugakerfið uppgötvun: Aha! Hann/hún andar svona rólega … best
að slaka á. Þetta er staðreynd sem færðar hafa verið sönnur á og yfir þig færist ró og líkaminn slakar á.

Njóttu þess í nokkrar mínútur að vera á þessum góða stað. Ef áhyggjuhugsanir dúkka upp skaltu skoða þær
eins og úr fjarlægð og sleppa þeim svo.

Galdurinn í þessu öllu er öndunin – öll athyglin á að snúast um hana. Ef hugarblaður af einhverju tagi fer af stað skaltu einfaldlega hugsa: Ég sé þig – ég hlusta á þig seinna. Þannig nærðu aftur að verða andardrátturinn þinn – ekkert annað nær að komast að.
Þessa tækni er hægt að nota hvenær sem er og hvar sem er þegar streita eða spenna er farin að valda þér óþægindum. Og mundu: Þegar þér finnst þú hafa minnstan tíma fyrir þessa fimm mínútna streitulosun … þá þarftu mest á henni að halda.

Gangi þér vel!
Svava í Kapitula

© 2018 | Kapituli ehf. | Síðumúla 14, 108 Reykjavík  | 698 9989