„Svava, það er alveg sama hversu mikið sjálfstraust ég hefði fæðst með, ef ég hefði ekki allt þetta hugrekki hefði ég ekki náð svona langt.“
Þetta eru orð leiðtogakonu sem hefur náð gríðarlegum árangri.
En hvað er þor? Hvað er hugrekki?
Í okkar huga felst þor í kjarki, áræðni og dirfsku.
Þor snýst um að framkvæma það sem maður óttast að framkvæma – að horfast í augu við óttann við að gera það sem við þráum.
Hér er staðreynd sem ekki er á allra vitorði: Það er hægt að þjálfa þorið með því að stunda þorþjálfun. Þannig þorirðu að vera þú sjálf(ur) og stígur inn í fullan styrk. Með því að nota hugmyndir og innblástur úr fyrri bloggum þegar við byrjum að efast getum við munað að innra með okkur býr mikil styrkur. Við eigum lífsgildin okkar og vitum fyrir hvað við stöndum. Við erum meðvituð um kjarnastyrkleikana og erum orðnir algjörir sérfræðingar í apatamningum þegar hugurinn fer í mínus.
Þorþjálfunin tekur á hlutum sem við þekkjum alltof vel. Óákveðni, ósjálfstæði, frestun, stöðnun. Oft á tíðum finnst okkur miklu einfaldara að vera í kyrrstöðu en að takast á við óttann. Ekki rugga bátnum, ekki vera á annarri skoðun, ekki taka of mikið pláss.Til lengri tíma er samt betra að þjálfa sig í að standa með sjálfum sér, trúa á eigin getu og treysta innsæinu.
Höfum eftirfarandi að leiðarljósi þegar við þjálfum þorið:
FÓKUSERA
FRAMKVÆMA
FAGNA
Förum ekki í auðveldu verkefnin í lífinu og frestum því sem við óttumst. Förum þess í stað í þorgallann:
- Setjum skýran fókus á það sem virðist ógnvænlegt – sama hvað það er. Fókusinn getur falist í því að vinna í málinu á hverjum degi, til dæmis að æfa sig í að taka frumkvæði á fundum eða standa með öryggi á skoðun sinni.
- Framkvæmdin felur í sér að búta fílinn niður og borða hann í skynsamlega stórum bitum. Afreksþjálfun tekur tíma og við verðum ekki meistarar á einni nóttu. En þegar við erum staðföst verða nokkrar mínútur á hverjum degi að dögum og vikum. Finndu þína leið. Hvað hentar þér að gera í 10-15 mínútur á hverjum degi sem eflir þig í að takast á við það sem þú óttast?
- Síðast en ekki síst skiptir miklu máli að fagna!!! Dansa stríðsdans, klappa þér á öxlina, splæsa í sushi eða stóra kökusneið. Vel gert hjá mér! Það skiptir miklu máli að snúa sér við, horfa yfir farinn veg og dást að eigin verkum. Stundum verður maður hreinlega steinhissa. Ja hérna, gerði ég þetta virkilega?
Svona höldum við áfram á vit ævintýranna; okkur vex ásmegin og við höfum þor til að takast á við stærri og stærri verkefni eftir hvert „fagn“. Við upplifum að við séum verðug, finnum kraftinn sem innsæið færir okkur og lifum í takt við þann tilgang sem fylgdi okkur inn í lífið.
Hættu að láta lífið koma fyrir þig – skapaðu þitt líf á þínum forsendum og komdu þér stanslaust á óvart.
Góða skemmtun og gangi þér vel!
Svava í Kapitula